Rafíþróttamót Samfés
Rafíþróttir hjá Samfés
Rafíþróttamót Samfés er árlegur viðburður fyrir ungt fólk á aldrinum 13–25 ára þar sem áhersla er lögð á faglegt rafíþróttastarf og jákvæða þátttöku. Mótið var fyrst haldið í Digranesi árið 2018 og spratt upp úr samnorrænu rafíþróttaverkefni sem Samfés stóð að í samstarfi við Ungdomsringen í Danmörku og öðrum norrænum samstarfsaðilum. Aðdragandinn byggði á skýru ákalli frá Ungmennaráði Samfés um að skapa vettvang fyrir rafíþróttir á Íslandi. Í kjölfarið hóf Samfés samstarf við Elko og var mótið framkvæmt í sameiningu þar til samstarfinu lauk árið 2023. Nú er viðburðurinn í endurmótun og á eftir að taka á sig endanlega mynd.
Þegar viðburðurinn var settur á laggirnar var lítið sem ekkert í boði fyrir ungmenni sem áttu rafíþróttir að áhugamáli. Á undanförnum árum hefur hins vegar orðið mikil þróun á landsvísu, bæði með stofnun Rafíþróttasambands Íslands og tilkomu fjölmargra rafíþróttadeilda hjá íþróttafélögum. Í dag býr þessi hópur ungmenna því yfir mun fjölbreyttari möguleikum, aðstöðu og stuðningi til að stunda sitt áhugamál á faglegum og skipulögðum vettvangi.
Viðburðurinn hefur frá upphafi verið mikilvægur vettvangur til að ná til breiðs hóps ungs fólks, efla félagsfærni og draga úr félagslegri einangrun. Í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum fer fram öflugt rafíþróttastarf sem byggir á heilbrigðum spilavenjum, hópvinnu og reglufestu. Þessi nálgun speglar margt af því sem þekkist í hefðbundnum íþróttum, þar á meðal markvissa æfingu, hollustu og skipulagða þátttöku.
Dagskrá mótsins hefur hingað til boðið upp á keppni í vinsælustu leikjum ungs fólks, svo sem CS:GO, Fortnite, R6S, LoL og FIFA. Þátttakendur koma með eigin búnað, vinna saman í liðum eða keppa einstaklingslega og taka þátt í skipulögðum viðburði sem styður við bæði félagslega virkni og jákvæða spilamenningu.
Rafíþróttamót Samfés er hluti af þeirri fræðslu- og forvarnarvinnu sem unnin er á vettvangi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa. Með mótinu er stuðlað að ábyrgri stafrænnri þátttöku, félagslegri virkni og vettvangi þar sem ungmenni geta hist, borið saman reynslu og byggt upp jákvætt samfélag í kringum rafíþróttir.
Fram undan er áframhaldandi þróun mótsins í samráði við aðildarfélög, fagfólk og Ungmennaráð Samfés. Markmiðið er að tryggja að viðburðurinn endurspegli áfram þarfir ungs fólks og styðji við gæði frístundastarfs á landsvísu.
