Þarfagreining og kortlagning

Samfés á frístundastarfi

Árið 2024 framkvæmdi Samfés þarfagreiningu og kortlagningu á frístundastarfi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi.

Verkefnið var unnið af Aroni Brink, Guðrúnu Svövu Baldursdóttur og Jónu Rán Pétursdóttur, fyrir Samfés, í tengslum við vinnu við ný æskulýðslög og samþættingu þjónustu sveitarfélaga samkvæmt farsældarlögum.

Markmið greiningarinnar var að skoða stöðu frístundastarfs, meta styrkleika og áskoranir í starfsemi félagsmiðstöðva og leggja grunn að áframhaldandi þróun faglegs starfs á landsvísu.

Þarfagreiningin byggir á viðtölum við forstöðufólk félagsmiðstöðva víðs vegar um landið og veitir heildstæða mynd af starfseminni.

Í niðurstöðum kemur fram að félagsmiðstöðvar gegna lykilhlutverki í forvörnum, félagsþroska, lýðræðislegri þátttöku og valdeflingu barna og ungmenna.

Starfið felur í sér bæði opið starf þar sem börn og ungmenni koma saman á eigin forsendum, og sértækt fagstarf þar sem unnið er með ákveðnum hópum í áhættu eða með sérstakar þarfir.

Félagsmiðstöðvar eru einnig mikilvægur hluti af þverfaglegu samstarfi sveitarfélaga um farsæld barna og taka víða þátt í starfi ungmennaráða, forvarnateymum og samþættingu þjónustu.

Greiningin leiddi jafnframt í ljós að starf félagsmiðstöðva er mjög breytilegt eftir landshlutum. Þættir eins og lagastoð, fjármögnun, húsnæði, samgöngur og stöðugleiki starfsfólks hafa afgerandi áhrif á gæði starfsins og jafnræði barna og ungmenna til þátttöku.

Þar sem fagmenntað og stöðugt forstöðufólk er til staðar hefur byggst upp traust og árangursríkt frístundastarf. Þar sem mannafli er óstöðugur eða aðstaða ófullnægjandi er þjónustan brothætt og erfitt að viðhalda faglegri samfellu.