SamFest
SamFestingurinn
Árið 1991 var fyrsta Samfésballið haldið í Hinu Húsinu í Reykjavík. Með þessum viðburði svaraði Samfés óskum unglinga um sameiginlega skemmtun allra félagsmiðstöðva landsins. Það var Ungmennaráð Samfés sem gaf viðburðinum nafnið SamFestingurinn.
Frá árinu 2001 hefur SamFestingurinn verið haldinn í Laugardalshöllinni, þar sem aðrir staðir réðu ekki lengur við þann mikla fjölda ungmenna sem sóttu viðburðinn. Undanfarin ár hafa að jafnaði um 4.500 ungmenni tekið þátt – sem jafngildir um 30% allra unglinga á landinu. Þau koma alls staðar að, frá rúmlega 120 félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum, ásamt 300–400 starfsmönnum sem sjá til þess að öryggi og umgjörð séu til fyrirmyndar.
SamFestingurinn spannar tvo daga. Á föstudeginum er haldið stórt ball í Laugardalshöll þar sem vinsælustu hljómsveitir og plötusnúðar landsins stíga á svið ásamt ungum tónlistarmönnum úr félagsmiðstöðvunum sjálfum. Á laugardeginum fara fram tveir viðburðir: Leiktækjamótið og hin margrómaða Söngkeppni Samfés. Í Söngkeppninni, sem yfirleitt er sýnd í sjónvarpi, koma fram efnilegustu söngvarar landsins á aldrinum 13–16 ára. Lögin eru flutt með undirleik sem gjarnan er í höndum jafnaldra þeirra á hljóðfærum, sem gerir keppnina að einstökum vettvangi fyrir nýtt tónlistarfólk.
Ungmennaráð Samfés sér alfarið um að setja saman dagskrána, velja þá plötusnúða og hljómsveitir sem koma fram, og tryggja að viðburðurinn endurspegli áhugasvið og þarfir ungs fólks. SamFestingurinn er stærsti vímulausi ungmennaviðburður landsins og hefur í áratugi verið mikilvægur samveruvettvangur fyrir ungt fólk um allt land.
Reglur
-
Lágmarksfjöldi starfsmanna er einn starfsmaður á móti 17 unglingum. Þetta er sett til að tryggja eftirlit, stuðning og að allir þátttakendur hafi öruggt aðgengi að aðstoð ef á þarf að halda.
-
Allir þátttakendur þurfa að mæta og fara heim með rútu í gegnum sína félagsmiðstöð. Enginn má mæta eða fara á eigin vegum, þar sem skipulagðar rútusamgöngur tryggja öryggi og yfirsýn yfir hópinn.
-
SamFestingurinn er alfarið tóbaks-, áfengis- og vímuefnalaus. Þátttakendur sem hafa í vörslum sínum eða neyta slíkra efna geta átt á hættu að vera vísað frá viðburðinum.
-
Allar almennar reglur Samfés gilda á SamFestingnum og ber starfsfólki félagsmiðstöðva að kynna þær fyrir þátttakendum sínum áður en haldið er á viðburðinn.
-
Öllum nánari upplýsingum, s.s. um dagskrá, ballið og Söngkeppnina, er miðlað beint til aðildarfélaga Samfés. Félagsmiðstöðvar bera ábyrgð á að miðla þessum upplýsingum áfram til unglinganna og foreldra/forráðamanna þeirra.
-
Starfsfólk félagsmiðstöðva ber ábyrgð á sínum hópi allan viðburðinn, bæði á meðan á dagskrá stendur og í rútusamgöngum til og frá.
-
Starfsfólk félagsmiðstöðvana sinnir gæslu á viðburðinum til að tryggja að allt fari fram með eðlilegum hætti. Þátttakendur þurfa að virða fyrirmæli starfsfólks, gæslufólks og skipuleggjenda á öllum tímum.
