Danskeppni Samfés hófst árið 2017 að frumkvæði ungs fólks og hefur síðan þá slegið í gegn sem einn af árlegum viðburðum Samfés. Keppnin veitir ungu fólki á landsvísu einstakt tækifæri til að koma fram og taka þátt í skapandi viðburði.
Keppt er í tveimur aldursflokkum, 10–12 ára og 13–18 ára, og tveimur keppnisflokkum, einstaklings- og hópakeppni. Hópaatriði samanstanda af tveimur til sjö þátttakendum, en stærri hópar geta fengið undanþágu með leyfi. Öll atriði skulu vera frumsamin af þátttakendum sjálfum og skal hámarkslengd einstaklingsatriða vera 1:30 mínútur, en hámarkslengd hópaatriða 2:00 mínútur.
Skráning keppenda fer fram á mismunandi hátt eftir aldri. Keppendur á aldrinum 10–16 ára skrá sig í gegnum félagsmiðstöðvar og þarf starfsmaður félagsmiðstöðvar að fylgja þeim á keppnina. Keppendur sem eru 16 ára og eldri skrá sig í gegnum ungmennahús. Mikilvægt er að tónlistin (playback) fylgi með skráningu, annars telst skráningin ógild.
Hver félagsmiðstöð má skrá allt að fjögur atriði í keppnina, eitt hópaatriði og eitt einstaklingsatriði fyrir hvorn aldursflokk. Ungmennahúsum er heimilt að skrá tvö atriði, eitt hópaatriði og eitt einstaklingsatriði.
Mikið er lagt upp úr því að gera keppnina glæsilega og faglega í framkvæmd. Hún hefur notið mikilla vinsælda og hefur verið sýnd í beinu streymi hjá UngRúv, sem tryggir enn frekari útbreiðslu og þátttöku.
