40 ára afmæli Samfés

Samfés fagnaði 40 ára afmæli með hátíð í Höfuðstöðinni

Samfés, landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, fögnuðu 40 ára afmæli sínum þriðjudaginn 9. desember með veglegri afmælishátíð í Höfuðstöðinni.

Á hátíðinni var farið yfir sögu samtakanna og þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum til þess að gera æskulýðs- og forvarnarstarf að því öfluga starfi sem við þekkjum í dag. Heiðraðir voru frumkvöðlar og einstaklingar sem hafa mótað starfið í gegnum tíðina og skapað öruggan og styrkjandi vettvang fyrir ungmenni víðsvegar um landið.

Sérstök heiðursverðlaun Samfés voru veitt og fengu stofnendur samtakanna viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf sem og Vanda Sigurðardóttir sem hefur verið leiðandi afl í málefnum barna og ungmenna.

Á svið stigu meðal annars Ragnheiður Gröndal, sigurvegari Söngkeppni Samfés árið 2000, Klara Elías sem hafnaði í 3. sæti árið 2001, og hljómsveitin Úlfur Úlfur – en Arnar og Helgi tóku bæði þátt í Rímnaflæði árin 2002 og 2003. Þá fluttu stofnendur Samfés og Soffía Páls ávarp þar sem þau fóru yfir upphafið, gildi og framtíðarsýn samtakanna.

Afmæliskveðja barst frá Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, sem óskaði Samfés innilega til hamingju með tímamótin og þakkaði fyrir mikilvægt starf samtakanna í þágu ungs fólks:

„Ég sendi Samfés innilegar hamingjuóskir í tilefni stórafmælisins og þakka fyrir ykkar góðu störf í þágu ungs fólks á Íslandi undanfarin 40 ár. Í hugrekki og gleði höldum við fram á veg og gerum gott samfélag enn betra saman.
Með kærleikskveðju,
Halla T“

Boðið var upp á veitingar og ljúfa stemningu og var markmiðið að skapa tækifæri til samveru og endurfunda – um leið og horft var stoltum augum yfir fjörutíu ár af faglegu samstarfi, metnaði og sköpun tækifæra fyrir ungt fólk á Íslandi.

Samfés þakkar öllum sem mættu og öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessari merku vegferð undanfarna fjóra áratugi. Framundan eru ný tækifæri, ný verkefni og áframhaldandi vinna fyrir rödd og réttindi ungs fólks.

Next
Next

Rímnaflæði 2025