Samfés-Con 2026

Föstudaginn 16. janúar 2026 fór fram Samfés-Con í Sjálandsskóla í Garðabæ og var viðburðurinn afar vel sóttur. Alls tóku 240 starfsmenn félagsmiðstöðva og ungmennahúsa víðsvegar af landinu þátt í deginum sem var tileinkaður fræðslu, miðlun reynslu og innblæstri í ungmennastarfi. 

Á dagskrá voru fjölbreyttar málstofur og smiðjur sem snertu ólík viðfangsefni í starfi með ungmennum. Þar á meðal voru málstofur sem fjölluðu um netheima og samfélagsmiðla ungmenna, með sérstakri áherslu á hvað mikilvægt er að hafa í huga þegar kemur að öryggi, vellíðan og forvörnum í stafrænu umhverfi.

Fulltrúaráð Samfés hélt áhugaverða málstofu um TikTok þar sem fjallað var um áhrif miðilsins og hverjar bestu leiðirnar eru til að ná til ungmenna á þeirra eigin forsendum. Samtökin 78 voru með gagnræðumálstofu þar sem fjallað var um hvernig bregðast megi við hatursorðræðu á skilvirkan hátt og hvernig bæta megi samskipti í ungmennastarfi. Amnesty var með málstofu sem tók fyrir mannréttindi og hvernig hægt er að flétta þau inn í daglegt starf með ungmennum.

Einnig kynnti Rannís Erasmus+ og ESC þau fjölmörgu tækifæri sem standa fólki til boða í gegnum alþjóðlegt samstarf, sjálfboðaliðastarf og verkefni erlendis. Fyrir þau sem vildu verklega nálgun bauðst þátttakendum að taka þátt í spilasmiðju, útieldun, auk hópeflis og leikja sem miða að því að styrkja tengslamyndun og samvinnu.

Samfés-Con undirstrikar mikilvægi þess að skapa vettvang fyrir fagfólk í ungmennastarfi til að koma saman, deila þekkingu og efla sig í starfi.

Starfsfólk og stjórn Samfés vilja sérstaklega þakka félagsmiðstöðinni Klakanum í Sjálandsskóla fyrir að hýsa okkur og halda viðburðinn og við þökkum öllum sem komu, tóku þátt og lögðu sitt af mörkum til að gera daginn bæði fræðandi og skemmtilegan.

Next
Next

40 ára afmæli Samfés