Rímnaflæði 2025
Rímnaflæði, rappkeppni félagsmiðstöðva, fór fram föstudagskvöldið 21. nóvember í Fellahelli í Fellaskóla og var viðburðurinn vel sóttur með um 200 áhorfendum. Alls stigu sex atriði á svið og fluttu frumsamda tónlist og texta sem þau höfðu unnið af mikilli yfirvegun og sköpunargleði. Keppendur lögðu sig hart fram við að semja, móta og útfæra eigið efni og endurspeglaði keppnin það vel með fjölbreyttum og metnaðarfullum flutningi frá öllum þátttakendum. Rímnaflæði er mikilvægur vettvangur fyrir ungmenni til að tjá sig á eigin forsendum, koma hugmyndum sínum á framfæri og sýna styrk sinn í skapandi starfi.
Keppendur þurfa að vera í 8.–10. bekk og semja eigin texta. Áhersla er lögð á jákvæð og uppbyggileg skilaboð.
Keppnin hefur verið haldin frá 1999 og hefur reynst mikilvægur vettvangur fyrir unga rappara til að stíga sín fyrstu skref á sviði.
Ragga Holm stýrði kvöldinu og lokaði því með plötusnúðarsetti. DJ Hinrik úr Kjarnanum hitaði upp og rapparinn Saint Pete kom fram ásamt Daníel Alvin. Dómarar voru Árni Matt, Daníel Alvin, Alaska1867 og Matti.
Úrslit
🥇 Hilda Lóa og Gabríel – félagsmiðstöðin Ársel – Missa af
🥈 Andri, Atli, Grétar og Sigmar – félagsmiðstöðin Tónabær – 1 ár
🥉 Ragnar og Pétur – félagsmiðstöðin Frosti – Ekki alveg komið
Samfés þakkar öllum keppendum, starfsfólki og áhorfendum fyrir frábæran viðburð og frístundamiðstöðinni Miðbergi sérstaklega fyrir frábært samstarf og utanumhald.
Rímnaflæði heldur áfram að styrkja skapandi tjáningu, sjálfstraust og þátttöku ungs fólks um allt land.
